Íslenska Kristskirkjan

Þú ert hérna: Forsíða Fræðsla Orð frá prestinum Sannleikurinn ver sig sjálfur
Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa

Sannleikurinn ver sig sjálfur

Um páska minnumst við upprisu Jesú. Það er frábært. En nú á dögum eru margir sem draga þá sögu í efa og reyna á allan hátt að gera lítið úr trú okkar. Aumingja mennirnir, þeim er vorkunn. Oft hafa menn reynt að afsanna upprisuna, en ekki haft erindi sem erfiði. Málið er, að guðspjallahöfundarnir, sem skrifuðu upprisufrásagnirnar, sáu sjálfir Krist upprisinn. Bókmenntafræðingar, sem hafa rannsakað sögur þeirra, votta að þær séu frásagnir sjónarvotta. Markúsarguðspjall var fyrst skrifað, síðan trúlega Matteus, þá Lúkas og loks Jóhannesarguðspjall. Engin upprisufrásagnanna í þessum fjórum guðspjöllum er nákvæmlega eins. Hefðu guðspjallahöfundarnir ætlað að setja saman “skothelda” frásögn, þá hefðu þeir forðast að einhver atriði kæmu fram, sem gætu bent til þess, að frásagnirnar væru skáldaðar, en það gerðu þeir ekki. Þeir sögðu hver um sig frá eigin reynslu, og við vitum að engir tveir sjá sömu hluti nákvæmlega sömu augum. Tilbrigðin sýna einmitt, að frásagnirnar eru frásagnir sjónarvotta. Þessu gleyma sumir, sem gagnrýna sögurnar af upprisu Jesú.

Og svo er líka rétt að muna, hvílíkur fjöldi sá hann upprisinn. Fyrst voru það nokkrar konur (sem allar höfðu þekkt Jesú mjög vel), þá postularnir allir, síðan meira en 500 fylgjendur Jesú og að lokum Páll postuli. Tóm gröf út af fyrir sig sannar ekkert, en ef menn vilja tala um sönnun fyrir upprisu Jesú, þá ættu þeir að líta til sigurgöngu frumkirkjunnar á 1. öld. Hefði þessi mikla hreyfing orðið til, ef leiðtogi hennar hefði dáið fyrir fals og svik og fylgjendurnir ekki haft önnur vopn en vitnisburð um að hann hefði risið upp frá dauðum. Enginn vill verða píslarvottur vegna fréttar sem hann veit að er byggð á lygi. Hefur þú heyrt um einhvern slíkan? Sé svo, láttu mig þá vita.

Nei, vantrúarraddirnar eru hjáróma, en sigurhrópið “Hann er upprisinn! hann er sannarlega upprisinn!” mun aldrei þagna. Gleðilega páska!